Beint í efni

Saga FÍF

Félag íslenskra félagsvísindamanna grundvallar þjónustu sína á styrkum stoðum langrar sögu og sækir sér aukið afl með því að starfa undir merkjum BHM og vera þannig hluti af stórri og öflugri heild.

Félagið var stofnað þann 20. maí 1976 sem fagfélag og var þá nefnt Félag þjóðfélagsfræðinga. Stofnendur var hópur fólks sem lokið höfðu BA prófi í „almennum þjóðfélagsfræðum“ frá námsbraut í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands, sem hóf starfsemi 1969 (félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði) auk einstaklinga sem lokið höfðu námi í félagsvísindum erlendis. Frá upphafi var félagið aðili að samstarfi bæði norrænna félagsfræðinga og stjórnmálafræðinga.

Á 6. þingi Bandalags háskólamanna (BHM) 1984 var samþykkt að veita Félagi þjóðfélagsfræðinga aðili að bandalaginu. Í desember sama ár var stofnuð kjaradeild ríkisstarfsmanna innan félagsins. Í henni voru þeir ríkisstarfsmenn sem ekki voru í vinnustaðabundnum félögum, eins og háskólakennarar, framhaldsskólakennarar og fréttamenn. Félagið lagði fram sína fyrstu kröfugerð fyrir kjaradóm í mars 1985 og fékk sinn fyrsta kjarasamning með útskurði kjaradóms í apríl 1985.

Eins og áður segir hófst kennsla í „Almennum þjóðfélagsfræðum“ 1969 en það var fyrst eftir að nemendur fóru að útskrifast sem félagsvísindamenn fóru að gera sig gildandi á vinnumarkaði. Laun samkvæmt samningum félagsins tóku um 20 til 30 manns fyrstu árin, en heildarfjöldi félagsmanna var þá á annað hundrað. Strax í upphafi var ljóst að þeir einstaklingar sem uppfylla þau skilyrði að tilheyra kjaradeild félagsins störfuðu á sviði stjórnsýslu og/eða við öflun og úrvinnslu upplýsinga.

Í nóvember 1991 var nafni félagsins breytt í Félag íslenskra félagsvísindamanna. Á þeim tíma starfaði félagið bæði sem fagfélag félagsvísindamanna og sem stéttarfélag. Samhlið stofnun Félags stjórnmálafræðinga árið 1995 og Félags félagsfræðinga ári síðar urðu breytingar þar á og félagið hætti smátt og smátt að starfa sem fagfélag og er í dag eingöngu stéttarfélag félagsvísindamanna. Félagið er með kjarasamning við ríki, sveitarfélög og Samtök atvinnulífsins.

Frá því félagið varð aðili að BHM hefur það verið til húsa á sama stað og bandalagið, fyrst í Lágmúla og svo í Borgartúni í Reykjavík. Félagið á og rekur þar sameiginlega þjónustuskrifstofu með fjórum öðrum stéttarfélögum og nær þannig að halda úti öflugri starfsemi fyrir sitt félagsfólk. Sameiginlega þjónustuskrifstofan nefnist FHS – félög háskólamenntaðra sérfræðinga.

Félagið á og rekur sameiginlega þjónustuskrifstofu með fjórum öðrum stéttarfélögum og nær þannig að halda úti öflugri starfsemi fyrir sitt félagsfólk. Sameiginlega þjónustuskrifstofan nefnist FHS – félög háskólamenntaðra sérfræðinga.