Beint í efni

Lög FÍF

I. kafli. Félagið

1. gr. Heiti félagsins er Félag íslenskra félagsvísindamanna, skammstafað FÍF. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði þess tekur til alls landsins.

2. gr. Hlutverk Félags íslenskra félagsvísindamanna er:

  • Að vinna að bættum kjörum félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í kjara- og réttindamálum.
  • Að fara með samningsumboð fyrir félagsmenn gagnvart samtökum launagreiðenda.
  • Að standa vörð um réttindi félagsmanna á vinnumarkaði og að upplýsa þá um réttindi þeirra og skyldur.
  • Að vinna að öryggi félagsmanna á vinnustað.
  • Að stuðla að samstarfi við innlend og erlend stéttarfélög.

3. gr. Félagið er aðili að Bandalagi háskólamanna.

II. kafli. Félagsmenn

4. gr. Félagsmenn geta orðið:

  • Þeir launamenn sem hafa viðurkennt lokapróf í félagsvísindum frá háskóla eða hliðstæðum menntastofnunum.
  • Þeir sem starfa sem sérfræðingar á sviði félagsvísinda og hafa viðurkennda háskólamenntun í hliðstæðum greinum.

Beiðni um félagsaðild skal beina skriflega til félagsins, ásamt prófskírteini og öðlast hún gildi þegar félagsgjöld hafa verið greidd. Félagsmaður sem hefur greitt félagsgjald telst fullgildur félagsmaður og hefur kjörgengi og atkvæðisrétt.

5. gr. Úrsögn úr félaginu

Þegar greiðslur hætta að berast félaginu verður félagsmaður óvirkur og ekki lengur fullgildur félagsmaður. Þetta gildir ekki ef greiðslur hætta að berast eftir að vinnustöðvun hefur verið boðuð hjá atvinnurekanda viðkomandi félagsmanns eða á meðan á vinnustöðvun stendur.

Félagsmaður, sem segir sig úr félaginu, á ekki tilkall til eigna þess.

6. gr. Námsmannaaðild

Háskólanemar sem lokið hafa 30 eininga háskólanámi geta fengið námsmannaaðild að félaginu.

● Námsmannaaðild felur í sér heimild til þátttöku í starfsemi félagsins, með málfrelsi og tillögurétti þó ekki atkvæðisrétti eða kjörgengi

● Þeir sem eru með námsmannaaðild og þiggja ekki laun, greiða heldur ekki félagsgjöld á sama tíma.

● Námsmenn sem starfa með námi greiða félagsgjöld og njóta réttinda samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma. Námsmannaaðild í grunnnámi (BA/BS próf) getur ekki varað lengur en fjögur ár samtals.

● Námsmannaaðild getur varðað allt að 5 árum.

Beiðni um námsmannaaðild skal beina skriflega til félagsins og öðlast þegar gildi.

III. kafli. Aðalfundur

7. gr. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert. Skal til hans boðað með minnst viku fyrirvara og er hann þá lögmætur. Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram sem staðfundur, rafrænt í fjarfundi eða sem bæði stað- og fjarfundur, og skal þess þá getið í fundarboði. Fara þá rafrænt fram atkvæðagreiðslur, samþykktir og slíkt sem jafnan færi fram skriflega. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti í öllum málum nema þeim sem snerta breytingu á lögum félagsins. Til lagabreytinga þarf 2/3 atkvæða fundarmanna.

8. gr. Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi liðir:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar.

3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til staðfestingar.

4. Ákvörðun um félagsgjöld.

5. Lagabreytingar.

6. Kosning formanns.

7. Kosning stjórnar og varastjórnar.

8. Önnur mál.

9. gr. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en tveim vikum fyrir aðalfund. Þeirra skal getið í fundarboði.

10. gr. Framboð til embættis formanns skal skila til stjórnar tveimur vikum fyrir aðalfund, en framboð til annara embætta geta komið fram undir viðkomandi lið í dagskránni.

11. gr. Komi til þess að stjórn segi af sér störfum skal hún boða til aukaaðalfundar og nýir fulltrúar kosnir til sama tíma og fráfarandi fulltrúar voru áður kosnir.

12. gr. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fram til staðfestingar á aðalfundi.

13. gr. Félagsmönnum er skylt að greiða félagsgjald sem skal ákveðið á aðalfundi. Tillögur um breytingar á félagsgjaldi skulu kynntar í fundarboði.

IV. kafli. Stjórn, varastjórn og samninganefnd

14. gr. Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum; formanni, sem kosinn er til tveggja ára, varaformanni, gjaldkera, ritara, og meðstjórnanda sem kosnir eru til eins árs. Tvo varamenn skal kjósa til sama tíma. Formann skal kjósa sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur í stjórn en átta ár í senn. Fyrri störf formanns í stjórn skulu þó undanskilin. Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja og tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins.

Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjármálum og öllum rekstri félagsins. Stjórn skal láta endurskoða reikninga félagsins og leggja þá fram á aðalfundi áritaða af endurskoðanda, stjórn og framkvæmdastjóra. Allar ákvarðanir um óregluleg útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir félagið skulu teknar til formlegrar afgreiðslu á stjórnarfundum. Gerðir stjórnar skulu bókaðar.

15. gr. Samninganefnd

Samninganefnd félagsins skipa aðal- og varamenn í stjórn og hún velur formann samninganefndar. Nefndin kallar til aðra félagsmenn, starfsmenn og sérfræðinga eftir þörfum. Verkefni samninganefndar eru:

1. að undirbúa og samþykkja kröfugerð félagsins vegna kjarasamningsviðræðna

2. að taka ákvörðun um það hvort leitað skuli eftir samþykki félagsmanna til verkfallsboðunar

3. að vera stjórn félagsins til ráðgjafar um kjaraatriði og túlkun kjarasamninga.

Verði ágreiningur í samninganefnd um tiltekið mál skal greiða atkvæði um það og ræður afl atkvæða úrslitum. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Stjórn félagsins skal kynna félagsmönnum kjarasamning og bera hann undir atkvæði þeirra félagsmanna sem undir samninginn heyra. Rafræn atkvæðagreiðsla skal vera jafngild atkvæðagreiðslu á félagsfundi.

Ákvarðanir um samninga eða annað er varðar kjör félagsmanna verða aðeins teknar af þeim sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem samningurinn nær til.

V. kafli Þjónustuskrifstofa

16. gr. Stjórn félagsins er heimilt að gera samning um rekstur skrifstofu til þjónustu við félagsmenn í samstarfi við önnur félög innan BHM. Formaður félagsins skal taka virkan þátt í rekstri skrifstofunnar í samræmi við samning þar um. Starfs- og rekstraráætlun þjónustuskrifstofunnar skal lögð fyrir stjórn félagsins til samþykktar.

VI. kafli. Félagsfundir og félagsslit

17. gr. Félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir, þó alltaf ef 10% félagsmanna krefjast þess.

Stjórn getur vísað samþykktum félagsfundar til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála nema um annað sé sérstaklega getið í lögum þessum.

18. gr. Félaginu verður ekki slitið nema það sé samþykkt af 3/4 hluta greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu. Í tillögu um félagsslit skulu vera ákvæði um hvernig eignum félagsins skuli ráðstafað.