Beint í efni

 Viska tekur til starfa 

Eitt stærsta stéttarfélag sérfræðinga á Íslandi hefur störf 

Eins og félagsfólki væntanlega er kunnugt um sameinuðust Fræðagarður, SBU og FÍF í stéttarfélagið Visku í lok síðasta árs.

Tímamót urðu um þessi áramót þegar félagið tók formlega til starfa og skrifstofa Visku opnaði dyr sínar. Á skrifstofu félagsins starfa átta manns og framkvæmdastjóri er Georg Brynjarsson. Skrifstofa félagsins er til húsa í Borgartúni 6.

Stjórn Visku fyrsta starfsárið samanstendur af stjórnum þeirra þriggja félaga sem komu að stofnun þess. Formaður er Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, varaformaður er Kristmundur Þór Ólafsson og gjaldkeri er Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar.

Um áramótin runnu kjarafélagar Arkitektafélags Íslands (AÍ) einnig inn í Visku og er félagsfólk þá orðið hátt í 5.000 talsins. Viska er stærsta aðildarfélag BHM og eitt stærsta stéttarfélag sérfræðinga á Íslandi.

Starfsfólk og stjórn skrifstofunnar vinnur hörðum höndum að því að byggja upp félagsstarfið samhliða undirbúningi kjaraviðræðna. Unnið er að gerð nýrrar vefsíðu fyrir Visku, viska.is, en stefnt er að því að hún komi út í febrúarmánuði. Í millitíðinni getur félagsfólk fylgst með okkur á vefsíðum stofnfélaga, www.fraedagardur.is / www.sbu.is / www.felagsvisindamenn.is.