Vel heppnuðu stefnumótunarþingi lokið
Félagsfólk mótaði stefnu nýs stéttarfélags
Á laugardaginn síðastliðinn hittist félagsfólk í Félagi íslenskra félagsvísindamanna (FÍF), Fræðagarði og Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) á stefnumótunarþingi til að móta stefnu sameinaðs stéttarfélags. Fór þingið fram á Hilton Reykjavík Nordica og tókst vel upp í alla staði. Líflegar umræður sköpuðust og setti félagsfólk mark sitt á stefnu nýs stéttarfélags svo um munar.
Stjórnir FÍF, Fræðagarðs og SBU vilja þakka öllu því félagsfólki sem tók sér tíma frá dagsins amstri og tók þátt í stefnumótunarþinginu. Lýðræðisleg þátttaka félagsfólks í félagsstarfi er grundvöllur þess að stéttarfélög þrífist, vaxi og dafni. Það er einlægur vilji stjórna FÍF, Fræðagarðs og SBU að nýtt, sameinað stéttarfélag verði byggt upp á forsendum eiganda sinna þ.e. félagsfólks.
Á næstu vikum munu FÍF, Fræðagarður og SBU boða til aukaaðalfunda þar sem formlegar tillögur um að sameinast í öflugu stéttarfélagi verða bornar undir félagsfólk. Aukaaðalfundir félaganna verða auglýstir sérstaklega þegar nær dregur.
Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar voru af þeim fjölbreytta hópi fólks sem mætti á stefnumótunarþingið.









