Beint í efni

Nafn á nýju stéttarfélagi kynnt

Nafn á sameinuðu stéttarfélagi hefur litið dagsins ljós

Fyrr á þessu ári samþykktu aðalfundir Félags íslenskra félagsvísindamanna (FÍF), Fræðagarðs og Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) tillögu þess efnis að hefja viðræður um að sameinast í nýtt og öflugt stéttarfélag. Síðan þá hafa stjórnir og starfsfólk félaganna þriggja unnið ötullega að undirbúningi þessarar sameiningar.

Stjórnir félaganna hafa lagt þunga áherslu á að sameiningarviðræðurnar væru opnar og lýðræðislegar og að félögin hefðu jafna rödd þegar kæmi að því að móta þjónustu og stefnu nýs félags. Skipaðir voru fjórir starfshópar með stjórnarfólki allra þriggja félaganna sem tóku á ólíkum álitamálum; starfshópur um fjármál, starfshópur um þjónustu og félagsgæði, starfshópur um ásýnd og kynningarmál og starfshópur um lög og stefnu nýs félags. Stórum áfanga í ferlinu var náð síðastliðinn laugardag, þegar félagsfólk allra félaganna hittist á opnu stefnumótunarþingi til að móta stefnu nýs stéttarfélags.

Eitt af stærstu verkefnum síðustu mánaða var að finna nafn á sameinuðu stéttarfélagi. Það mikilvæga verkefni kom í hlut starfshóps um ásýnd og kynningarmál. Til liðs við þann hóp var fengin auglýsingastofan Hér & Nú. Ferlið við nafnavalið var langt og strangt en m.a. var farið í rannsóknarvinnu á nöfnum og útliti stéttarfélaga hér á landi og erlendis. Fjölmargir verkefnafundir voru haldnir þar sem ímynd, raddblær og persónuleiki nýja stéttarfélagsins var rammaður inn.

Eftir að hafa farið í gegnum mörg hundruð nafnatillögur þá varð eitt nafn fyrir valinu en það má sjá í enda myndbandsins hér fyrir neðan. Næstu skref í ferlinu er að hanna útlit og merki nýja félagsins sem verður kynnt fljótlega.

Nafn nýja stéttarfélagsins

Á næstu vikum munu FÍF, Fræðagarður og SBU boða til aukaaðalfunda þar sem formlegar tillögur um að sameinast í öflugu stéttarfélagi verða bornar undir félagsfólk. Aukaaðalfundir félaganna verða auglýstir sérstaklega þegar nær dregur.