Aðalfundur FÍF árið 2023 afstaðinn
Aðalfundur félagsins fór fram í húsakynnum BHM mánudaginn 27. febrúar
Aðalfundur FÍF kom saman á 4. hæð í Borgartúni 6 í hádeginu í gær. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf félagsins. Kristmundur Þór Ólafsson formaður stjórnar félagsins fór yfir skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og þá voru ársreikningar félagsins samþykktir.

Aðalfundur samþykkti tillögu stjórnar um heildarendurskoðun á lögum félagsins . Þá lagði stjórn félagsins fram eftirfarandi tillögu til samþykktar undir aðalfund og fundurinn samþykkti tillöguna samhljóða.
Tillaga stjórnar
Stjórn félagsins óskar eftir umboði aðalfundar til að taka upp viðræður við önnur stéttarfélög háskólamenntaðs fólks um sameiningu félaganna. Markmið viðræðnanna er að kanna kosti þess að setja á fót nýtt og öflugt stéttarfélag háskólamenntaðra sérfræðinga, sem byggir á sterkum og fjölbreyttum grunni ólíkra félaga og er jafnframt í stakk búið til að takast á við áskoranir á vinnumarkaði framtíðarinnar.
Á fundinum fór kjör í stjórn félagsins fram en það voru laus sæti fjögurra aðalmanna og tveggja varamanna. Ester Ósk Traustadóttir, Gustav Pétursson, Kristín Arnórsdóttir og Steindór Gunnar Steindórsson voru sjálfkjörin í sæti aðalmanna til eins árs. Þá voru Guðjón Hauksson og Tryggvi Hallgrímsson sjálfkjörnir í sæti varamanna.
Að aðalfundi loknum lét Íris Dögg Björnsdóttir af störfum fyrir stjórn FÍF og þá hafði Þóra Kristín Þórsdóttir hætt í stjórn félagsins eftir að hafa hafið störf á skrifstofu Bandalags háskólamanna (BHM) í júní í fyrra. Nýkjörin stjórn og formaður FÍF þakka Írisi Dögg og Þóru Kristínu fyrir störf sín í þágu félagsins.
Nýkjörin stjórn FÍF þakkar jafnframt félagsfólki fyrir traustið sem henni er sýnt og hlakkar til að starfa í þágu félagsins næsta árið.